Hér er greint frá dómi sem skýrir hvernig ábyrgð á lánum af hálfu ábyrgðarmanna getur orðið ógild ef lánveitendur uppfylla ekki skyldur sínar gagnvart ábyrgðarmönnum með hliðsjón af lögum um ábyrgðarmenn frá 2009.
Lög sem tóku gildi 2009 um ábyrgðarmenn kváðu á um þrjár meginskyldur lánveitenda. Í fyrsta lagi að lánveitendur skuli vinna greiðslumat á skuldara og kynna fyrir ábyrgðarmanni áður en ábyrgðarmaðurinn staðfestir ábyrgð sína með undirskrift. Í öðru lagi að lánveitendur skuli með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Í þriðja lagi er kveðið á um vissa upplýsingaskyldu lántaka gagnvart ábyrgðarmanni.
Vanræki lánveitandi að sinna einhverri af ofangreindum reglum/ skyldum, þá leiðir það til þess að ábyrgðin eða lánsveðið er að öllum líkindum ólögmæt og ábyrgðin því ógildanleg skv. samningalögum, þ.e.a.s. með vísun í almennar reglur samningaréttar.
Ógilding ábyrgðar á þeim forsendum var einmitt niðurstaðan í dómi sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 10. júlí sl. í máli nr. E-1719/2018. Málið snerist um að LÍN hafði stefnt skuldara námsláns og ábyrgðarmanni til greiðslu skuldar. Ábyrgðarmaðurinn tók þar til varna og sá undirritaður um að gæta hagsmuna hans fyrir dómi.
Krafa ábyrgðarmannsins var sú að sjálfskuldarábyrgð lánsins myndi víkja á grundvelli 36 gr. samningalaga, meðal annars vegna þess að LÍN sem lánveitandi, hefði ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009.
Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að LÍN hafi ekki uppfyllt skyldu sína um að ráða ábyrgðarmanninum frá því skriflega að gangast undir ábyrgðina. Með vísan til þess taldi héraðsdómur óvíst hvort að ábyrgðarmaðurinn hefði verið tilbúinn að gangast undir sjálfskuldarábyrgðina ef LÍN hefði svo sem opinberum lánastofnunum er skylt, ráðið honum skriflega frá því, með vísan til þess að greiðslumat lántaka var neikvætt.
Héraðsdómur taldi þar af leiðandi að uppfyllt væru skilyrði samningalaga til að víkja til hliðar sjálfskuldarábyrgðinni enda ósanngjarnt að mati dómsins af hálfu LÍN að bera fyrir sig ,,óupplýst” loforð ábyrgðarmannsins. Var ábyrgðarmaðurinn því sýknaður af fjárkröfu LÍN.
Að mati undirritaðs eru fjölmörg sambærileg dæmi til staðar í samfélaginu, þar sem að lánastofnanir hafa ekki fylgt ofangreindum reglum og eru að innheimta kröfur hjá ábyrgðarmönnum sem í reynd eru ólögmætar.
Þeir sem hafa gengist í ábyrgð fyrir skuld geta og eiga að kanna stöðu sína að þessu leyti. Það er á valdi ábyrgðarmanna að sækja þennan rétt sinn því lánveitendur skoða ekki réttmæti ábyrgða hvað þessi atriði varðar að eigin frumkvæði.
Fordæmi þess dóms sem féll í umræddu máli sýnir að það getur margborgað sig fyrir ábyrgðarmenn að fá óháða sérfræðinga til að kanna réttarstöðu sína í þessum efnum, hvað varðar lögmæti lánsábyrgða.