Möguleikar erfðaskráa

By Hilmar G. Þorsteinsson
May 01, 2020

„Ok er þeir komu þar, gerði [hann] svo sem sannur vinur laganna lögligt testamentum, þat sem enn er varðveitt heima þar á staðnum,“ segir í Árna sögu biskups. Og nú til dags gerir um fimmtungur Íslendinga sér erfðaskrá, samkvæmt lauslegum könnunum. Margir draga það þó alltof lengi, hafa það lengi í huga en koma sér aldrei að því. Loks getur svo farið að það verður um seinan, því enginn veit sitt skapadægur eða hvenær andlegt hæfi brestur. Er það mjög miður því margvíslegt gagn má hafa af erfðaskrám, séu þær skynsamlega gerðar.

          Samkvæmt íslenskum erfðalögum, að stofni til frá 1962, má hver maður ráðstafa eigum sínum eftir sinn dag, að öllu leyti sé hann ókvæntur og barnlaus, en að einum þriðja hluta sé hann í hjúskap eða eigi hann börn. Maki og börn eru skylduerfingjar og má ekki svipta þau nema þriðjungi arfs án þeirra samþykkis. Ráðstafa má arfi annarra lögerfingja, svo sem systkina og foreldra, að fullu með erfðaskrá. Verða nú nefnd nokkur dæmi um algeng erfðaskrárákvæði sem komið geta að miklu gagni.

           Mörg hjón gera sameiginlega erfðaskrá þar sem kveðið er á um rétt langlífara maka til setu í óskiptu búi. Sé þetta ekki gert, geta stjúpbörn komið í veg fyrir að langlífari maki fái leyfi til setu í óskiptu búi og verða þá skipti að fara fram og arfsúthlutun með öllu því raski sem því getur fylgt. Með erfðaskrá má einnig auka erfðahlut maka, en samkvæmt lögum ber honum þriðjungur af eignum dánarbúsins á móti börnum hins skammlífara.

            Sambúðarfólk hefur ekki gagnkvæman erfðarétt að lögum og hafa margir, sérstaklega ungt fólk, því miður brennt sig á því. Þegar fjárskipti fara fram við fráfall sambúðarmaka gildir engin helmingaskiptaregla líkt og um hjón. Meginreglan er sú, að langlífari makinn heldur aðeins þeim eignum sem hann átti við upphaf sambúðar og því sem hann eignaðist á sambúðartímanum. Almennt teldist hann engan hlut eiga í þeim stærri eignum sem skráðar væru á skammlífara maka. Á þessu mætti ráða fulla bót með erfðaskrá, sé skylduerfingjum ekki til að dreifa, en annars að þriðjungi.

 

 

            Fósturbörn og stjúpbörn hafa engan erfðarétt að lögum þótt þau hljóti oft að vera arfleifanda sérstaklega kær. Því veita margir þeim slíkan rétt með erfðaskrá. Hið sama má segja um barnabörn, en arfur kann að koma þeim að betri notum en foreldrunum, og má þá ráðstafa honum beint til barnabarna með erfðaskrá og komast hjá tvöföldum erfðafjárskatti. Hægt er að ráðstafa ákveðnum munum til tiltekinna erfingja. Þá er ónefnt að mjög margir mæla fyrir um að arfur skuli vera séreign viðkomandi erfingja, þannig að tryggt sé að hann haldist í ættinni. Kemur hann þá ekki til skipta við skilnað. 

            Það verður seint ofbrýnt að mikilvægt er að vanda til verka þegar erfðaskrá er gerð og vottuð. Best er að leita aðstoðar hjá löglærðum manni sem er þaulkunnugur erfðarétti. Séu ákvæði erfðaskrár á einhvern hátt óljós eða ekki farið að ströngum formreglum er viðbúið að hún verði rengd og af spretti deilur eða jafnvel málaferli. Egill Skallagrímsson ætlaði að gera sér það að leik í elli sinni, að sá silfri sínu á Lögbergi og fylgjast með þingheimi berjast. Fáir munu óska erfingjum sínum hins sama nú til dags.