Sýkna af miskabótakröfu

By Guðbrandur Jóhannesson
Feb 01, 2021

Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2020 var fallist á sýknukröfu Þríþrautarsambands Íslands af miskabótakröfu félagsmanns á hendur sambandinu.

Félagskona sambandsins höfðaði mál til heimtu miskabóta eftir að henni hafði verið synjuð þáttaka á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði afreksstefnu sambandsins til þáttöku í Elite keppni erlendis.

Félagskonan taldi að afreksstefnan sem sambandið hefði sett og samþykkt, hefði ekki verið sett með lögmætum hætti og væri ekki í samræmi við afreksstefnur hjá öðrum þjóðum. Auk þess taldi hún að málsmeðferð sambandsins í undanfara synjunar hefði verið ólögmæt og í henni fælist m.a. einelti, mismunun og brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þær reglur sem Þríþrautarsambandið hefði sett varðandi þáttöku í Elite-keppnum væru almennar og styddust við málefnaleg sjónarmið.   Dómurinn komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að ekkert í málinu styddi málatilbúnað félagskonunnar um að afreksstefnan hefði ekki verið sett í samræmi við reglur. Auk þess taldir dómurinn ósannað að afreksstefnan væri ekki í samræmi við afreksstefnur annarra þjóða. Að endingu komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að félagskonunni hefði ekki tekist sönnun að henni hafi verið mismunað eða lögð í einelti af sambandinu eða starfsmönnum þess. 

Þegar af þeim ástæðum var miskabótakröfu félagskonunnar á hendur Þríþrautarsambandi Íslands hafnað.

Guðbrandur Jóhannesson landsréttarlögmaður á Lögþingi, rak málið fyrir hönd Þríþrautarsambands Íslands.