Viðmælanda í Paradísarheimt dæmdar miskabætur í Landsrétti

By Guðbrandur Jóhannesson
Apr 11, 2022
Þann 8. apríl 2022, kvað Landsréttur upp dóm í máli nr. 376/2021, þar sem sjónvarpsmanninum Jóni Ársæli var gert að greiða umbj. stofunnar miskabætur, en hún hafði verið viðmælandi hans í þættinum Paradísarheimt.
 
Byggt var á því fyrir dómstólum að ekki hafi verið aflað fullnægjandi samþykki fyrir öllum viðtölunum sem voru birt í þættinum. Jafnframt var byggt á því að viðmælandinn hefði afturkallað samþykki sitt fyrir birtingu viðtalanna með tölvupósti til Jóns Ársæls í febrúar 2018.  Segir í tölvupóstinum: Er hægt að taka mig út úr þessu? Hvenær átti þetta annars að koma? 

Fram kemur í dómi héraðsdóms að Jón Ársæll hafi fengið tölvupóstinn en hann hafi ekki skilið hann þannig að í honum fælist ósk um að vera tekin úr þættinum. Fram kemur í dómnum að Jón Ársæll einn haft vitneskju um tölvupóstinn þar sem viðmælandinn spurðist fyrir um hvort taka mætti hana úr Paradísarheimt. 

„Samkvæmt efni tölvupóstsins mátti [Jóni Ársæli] vera ljóst að ekki lægi lengur fyrir skýrt og ótvírætt samþykki áfrýjanda fyrir þátttöku í sjónvarpsþáttunum. Verður því að meta það honum til stórfellds gáleysis að hafa ekki í framhaldi af móttöku tölvupóstsins stöðvað birtingu efnis sem varðað áfrýjanda.“

Fram kemur í dómnum að með birtingu þáttarins hafi ýmsar persónuupplýsingar konunnar verið gerðar opinberar og með því að birta þær án samþykkis konunnar hafi Jón Ársæll gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn friði hennar og persónu. Brotið hafi verið til þess fallið að valda konunni miskatjóni. Í ljósi efnistaka umfjöllunarefnisins verði ekki talið að þátturinn hafi einvörðungu verið unnið í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi. Þá komi fram í vottorði sálfræðings, sem lagt var fyrir dóminn, að konan hafi ítrekað rætt vanlíðan sína vegna birtingar þáttanna og því ljóst að hún hafi orðið fyrir miskatjóni. 

Var honum því gert að greiða viðmælandanum kr. 800.000 í miskabætur. 

 
Guðbrandur Jóhannesson landsréttarlögmaður rak málið fyrir héraðsdómi og Landsrétti.